131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:16]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka og minni á að hv. þingmaður tók matvörumarkaðinn sérstaklega sem dæmi í ræðu sinni um að á grundvelli núgildandi laga, c-liðar 17. gr. samkeppnislaga, væri samkeppnisyfirvöldum heimilt að grípa til aðgerða og skipta upp fyrirtækjum vegna aðstæðna sem kynnu að skerða samkeppni. Svo er ekki og kemur fram í skýrslunni frá árinu 2001 sem samkeppnisyfirvöld gerðu hvað varðar matvörumarkaðinn.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að það er alveg rétt að í svokölluðu breiðbandsmáli sem hann vísaði til var vikið að c-lið 17. gr. núgildandi laga. Þetta var sjónarmið sem haft var uppi í málinu en það reyndi ekki á það í því máli. Ég bið því hv. þingmann um að kynna sér þann úrskurð betur en hann hefur gert.

Yfirlýsing hv. þingmanns var athyglisverð um að hann telji eðlilegt að samkeppnisyfirvöld hafi heimildir til að skipta upp fyrirtækjum án þess að þau teljist hafa gerst brotleg við lög. Þetta er tímamótayfirlýsing og dálítið sérstök, að hv. þingmaður sé tilbúinn til að beita refsivendinum með svo rosalega afgerandi hætti án þess að um lögbrot sé að ræða.