131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:18]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði í málflutningi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem ég tel rétt að gera athugasemdir við. Vegna síðustu ummæla hans er rétt að taka fram að það er ótvírætt í niðurstöðu nefndar viðskiptaráðherra um viðskiptalífið sem vísað hefur verið til, að forsenda fyrir því að hægt sé að beita skipulagsbreytingum er að um brot hafi verið að ræða. Við getum í nefndarstörfum okkar í efnahags- og viðskiptanefnd farið í gegnum það, en þetta er alveg klárt.

Varðandi samanburð milli Fjármálaeftirlits og samkeppnisyfirvalda varðandi hæfisskilyrði er rétt að geta þess að í lögum um Fjármálaeftirlitið er getið mjög sérhæfðra atriða sem lúta sérstaklega að fjármálamarkaðnum þegar hæfisskilyrði eru tilgreind, þannig að það getur engan veginn verið algerlega sambærilegt. Það er nauðsynlegt að það komi fram að í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn og forstjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.“

Þetta er það sem máli skiptir og er í samræmi við almennar reglur í stjórnsýslurétti.