131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra verður að gera sér ljóst og skoða í samhengi núverandi samkeppnisráð og hlutverk þess og síðan hlutverk þessarar þriggja manna stjórnar sem á að koma í stað samkeppnisráðs. Allar meiri háttar ákvarðanir þarf að bera undir þessa þriggja manna stjórn. Ég spyr: Hefði ekki þurft að bera undir þessa stjórn t.d. þegar Samkeppnisstofnun ákvað að fara í húsleit hjá olíufélögunum? Maður getur spurt sig hvort slík heimild hefði fengist hjá þessari þriggja manna stjórn eða ekki. Samkeppnisráð vissi t.d. ekkert um að farið var í þessa húsleit eftir því sem ég best veit. Á þessu verður veruleg breyting þegar bera þarf allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina.

Þetta verður þriggja manna stjórn, væntanlega formaður, varaformaður og síðan þriðji aðili. Ég minni á að t.d. fór sá sem sat lengi í samkeppnisráði, Brynjólfur Sigurðsson, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, úr samkeppnisráði þegar hann fékk forstjórastarfið, (Forseti hringir.) m.a. út af þessu ákvæði sem er verið að fella brott.