131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:54]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Mér kemur ekkert á óvart þó að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson geri athugasemdir við það og finnist allt í lagi að Samkeppnisstofnun búi við það fjársvelti sem ég fullyrði að hún hafi búið við á síðustu árum. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi sagt í tímariti laganema á árinu 2001 að hann vildi ekki hafa nein samkeppnislög og hann vildi engin viðurlög við samkeppnisbrotum. Það kemur manni ekkert á óvart að ef hann vill ekki hafa neina Samkeppnisstofnun vilji hann ekki setja neina peninga í hana.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur fjármagn til Samkeppnisstofnunar frá 1999–2003 aukist um 30%. Ef við erum að tala yfir lengra tímabil sem hv. þingmaður nefnir gleymir hann að geta þess hvað allt viðskiptaumhverfið hefur breyst á þessum tíma, hvað verkefnin hafa verið aukin hjá Samkeppnisstofnun sem auðvitað kallar á það að hún fái meira fjármagn og mannafla til að geta sinnt hlutverkum sínum. Þó að við lítum bara á fjármálamarkaðinn sem slíkan hefur hann stækkað svo að umfangi að það hlýtur að kalla á það að Samkeppnisstofnun þurfi meira fjármagn til verkefna sinna. Ég hvet hv. þingmann til að lesa síðustu ársskýrslu Samkeppnisstofnunar þar sem forstjórinn fer mjög skilmerkilega yfir það hvað umfang stofnunarinnar hefur aukist á umliðnum árum. Það setur hann fram sem rökstuðning fyrir því að meira fjármagn þurfi inn í stofnunina.

Ég vek athygli á því þegar hv. þingmaður talar um að ekki þurfi meiri peninga inn í þessa stofnun, hún hafi nóga peninga, að ég kallaði eftir því við hæstv. viðskiptaráðherra að fá fram hjá henni þá þarfagreiningu sem hefur verið gerð. Það væri gott að fá hana inn í þessa umræðu þannig að menn töluðu um þessi mál út frá réttum forsendum. Sú þarfagreining var gerð í samráði við stofnunina.