131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil aftur hvetja hv. þingmann til að lesa þessa ársskýrslu Samkeppnisstofnunar, (SKK: Ég er búinn …) þá sér hann hvað umsvif stofnunarinnar hafa vaxið í ljósi stækkunar á öllu hagkerfinu, fjármálamarkaðnum og öllu því. Hv. þingmaður hefur heldur ekki fylgst með þeim skýrslum og úttektum sem hafa komið fram í þessu máli og svörum sem hafa komið við fyrirspurnum á þinginu. Það hefur komið fram, t.d. hjá viðskiptaráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn minni, að sumir sem leggja erindi sín inn til Samkeppnisstofnunar þurfa að bíða allt að 14 mánuðum eftir niðurstöðu. Verkefnin hlaðast svo upp hjá Samkeppnisstofnun að hún hefur ekki við að vinna úr þeim. Það segir t.d. sína sögu hve langan tíma málefni tryggingafélaganna tók.

Ég tók líka eftir því að hv. þingmaður svaraði því ekki — þá liggur bara fyrir að hann hefur sagt það, að vísu áður en hann varð þingmaður, nú veit ég ekki hvort hann hefur breytt um skoðun, að hann vilji ekki hafa nein samkeppnislög og engin viðurlög við samkeppnisbrotum. Það skýrir auðvitað sjónarmið hv. þingmanns í umræðunni.