131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig kannski ekkert við það að athuga að þingflokkar taki sér góðan tíma til að skoða stjórnarfrumvörp. Oft eru þau þess eðlis að þingmenn stjórnarflokkanna ættu að taka sér enn lengri tíma en þeir stundum gera. Það sem ég gagnrýni er að þegar þingflokkur sjálfstæðismanna hefur haft frumvarpið til skoðunar frá því í nóvember og þar til núna í mars kemur það út frá sjálfstæðisþingmönnum með þannig ákvæði að veikja verulega samkeppniseftirlitið og allt sjálfstæði stofnunarinnar. Það er það sem ég er að gagnrýna og við höfum margfarið yfir það í þessari umræðu, ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ég tel að það veiki stofnunina að fá ekki þá heimild sem nefnd hæstv. ráðherra lagði til um íslenskt viðskiptaumhverfi, húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja. Það ákvæði er í norskum lögum og ég tel afar mikilvægt að fá það inn.

Ég ítreka það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði varðandi stjórnarskrána. Það er ekki verið að breyta henni neitt með þessu. Meira að segja hefur samkeppnisráð túlkað ákvæði 17. gr. í þá veru að hægt sé að skipta upp fyrirtækjum þó að á það hafi ekki reynt, að túlkunin á þessu ákvæði sem er í 17. gr. núgildandi samkeppnislaga sé í þá veru að það sé hægt, þetta ákvæði sem nú á að fella brott um að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Þegar verið er að fella út þetta ákvæði sem hefur haft slík varnaðaráhrif er verulega verið að veikja stofnunina.

Það er alveg furðulegt að hv. þingmaður skuli hafa stutt það — ef hann hefur þá gert það í þingflokknum sem ég hef ekki hugmynd um — að verið sé að draga úr hæfisskilyrðum stjórnenda, sérstaklega þegar það á að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir þessa stjórnendur þrjá. Það er verið að taka út þetta ákvæði sem segir að þeir megi ekki hafa hagsmuna að gæta af atvinnustarfsemi. (Forseti hringir.) Þetta er náttúrlega mjög eðlilegt ákvæði. Furðulegt ef hv. þingmaður hefur stutt það í þingflokki sínum.