131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:06]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég tel mjög mikilvægt að samkeppnislög séu vel unnin og góð og samkeppniseftirlit eins gott og hugsast getur þótt ég verði að gera þá játningu hér í upphafi að ef hægt er tala um að menn séu samkeppnistrúar er ég ekki þeirrar trúar. Ég er eiginlega miklu fremur samvinnutrúar, svona eins og Framsóknarflokkurinn var einu sinni. Hann er náttúrlega löngu hættur því, enda allt í heiminum hverfult.

Það er óhætt að segja að við lifum við miklar breytingar. Það er allt breytilegt, og breytilegast af öllu eru áherslur og stefna ríkisstjórnarinnar. Við ræddum það t.d. í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun að á sínum tíma þegar hafist var handa um að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum var viðkvæðið jafnan það að nauðsynlegt væri að auðvelda stofnunum sem verið hefðu í ríkisrekstri að athafna sig á markaði, ráðast í fjárfestingar og þar fram eftir götunum í tengdum eða skyldum rekstri. Þegar þetta hefur síðan verið gert venda menn kvæði sínu í kross og nú þarf að búta allar þessar sömu stofnanir sundur til þess m.a. að standast samkeppnislög.

Eitt hefur náttúrlega ekki breyst hjá þessari ríkisstjórn, það er vilji hennar og ákafi að einkavæða og markaðsvæða þjónustu sem áður hafði verið á vegum hins opinbera. Í ljósi þess er mjög mikilvægt að hafa traust samkeppniseftirlit; annars vegar lögin og hins vegar þær stofnanir sem eiga að framfylgja því að lögunum sé fullnægt. Þegar einkavæðingarhrinan fór fyrir alvöru af stað í upphafi 10. áratugarins voru gerðar breytingar á þessu eftirlitskerfi. Verðlagsstofnun sem svo hét var lögð niður og til sögunnar kom Samkeppnisstofnun. Það mun hafa verið árið 1993.

Nú eru enn boðaðar breytingar með þessu frumvarpi og áform eru uppi um að kljúfa Samkeppnisstofnun niður, annars vegar til að sinna samkeppnissviði og hins vegar neytendasviði.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fella neina endanlega dóma um ágæti slíkra breytinga, hvorki með né á móti. Þetta eru hlutir sem við þurfum einfaldlega að taka til rækilegrar skoðunar. Ég tel mjög mikilvægt að þinginu verði gefið gott ráðrúm til slíkrar skoðunar. Það er mjög óheppilegt þegar ráðist er í grundvallarbreytingar á stofnunum, og lögum ef því er að skipta, þegar vinnunni er hraðað um of. Við bíðum þess núna svo að dæmi sé tekið að inn í þingið komi frumvarp ríkisstjórnarinnar um ný útvarpslög. Þá skiptir öllu máli að mínu mati að þinginu verði skýrt frá því á fyrstu stigum að ekki komi til álita að keyra málið í gegn á þessu þingi, heldur gefist þinginu ráðrúm til að athuga það rækilega. Sama tel ég að eigi að gilda um þessi lög.

Þetta er í rauninni fyrsta áhersluatriði mitt um vinnubrögð við afgreiðslu þessara mála. Ég tel að við eigum ekki að fella neina endanlega dóma á þessu stigi, benda á það sem við teljum almennt til bóta, eða ókosti í frumvarpinu, og síðan þurfum við að fá mjög rækilega skoðun í nefndum þingsins áður en þær senda málið frá sér.

Örfá atriði vildi ég nefna en þó geta þess í tengslum við það sem ég hér sagði að málefni starfsmanna megum við ekki leiða hjá okkur. Það hefur stundum verið sagt að nauðsynlegt sé að hraða afgreiðslu laga af því tagi sem hér eru, sem varða breytingar á starfsumhverfi, vegna þess að nauðsynlegt sé að draga úr óvissu starfsmanna. Ég held hins vegar að það sé hægt að gera það með allt öðru móti, ræða við starfsmenn um það sem á döfinni er og síðan geta þeir mátað sig inn í þær breytingar sem hugsanlega verða uppi þegar þar að kemur. Þannig er þessu yfirleitt ekki háttað. Mönnum er stillt upp við vegg og síðan eru breytingarnar keyrðar í gegn. Ég tel það afar óheppilegt.

Varðandi stjórn þessarar stofnunar hef ég ákveðnar efasemdir um það sem hér er að gerast. Reyndar vil ég taka fram að mér finnst vera álitamál hvort stofnanir af þessu tagi eigi að heyra undir ráðherra eða ráðuneyti eða hvort fara eigi með þessar almennu eftirlitsstofnanir inn í annan farveg, t.d. að þær heyri undir Alþingi. Samkeppniseftirlitið á að lúta stjórn sem ráðherra skipar. Rækileg athygli hefur verið vakin á því hér við umræðurnar að þeim sem ráðherra skipar, þ.e. stjórnarmönnum, eru ekki sett af ráðherra nein skilyrði við skipan í stjórnina. Þannig væri eðlilegt að stjórnarmenn í Samkeppniseftirlitinu hefðu ekki neinna hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu.

Ég spyr: Getur það verið vegna þess að eftir 10 ára valdasetu Framsóknarflokksins sem skúffu í skrifborði Sjálfstæðisflokksins fyrirfinnist ekki lengur framsóknarmaður sem ekki á einhverra hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu? Er það skýringin?

Mér finnst þetta vera mjög óeðlilegt fyrirkomulag og það hefur verið vakin athygli á því, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson gerðu það, að hér er verið að draga úr skilyrðum frá núverandi lögum. Samkeppnisráð, þ.e. formaður og varaformaður þess mega ekki eiga slík viðskiptatengsl en samkvæmt þessum lögum eru engin slík skilyrði sett varðandi stjórnarsetu.

Einu velti ég fyrir mér. Ef nauðsynlegt er að hafa þennan hátt á við stjórn Samkeppnisstofnunar, að setja forstjórann undir stjórn, hvers vegna er það ekki gert með Neytendastofu? Hvers vegna er forstjórinn þar skipaður beint af ráðherra? Þurfum við ekki að fá skýringar á þessu? (Gripið fram í: Minna batterí.) Minna batterí. Minni ábyrgð hugsanlega, eða hvað? Afdrifaríkari ákvarðanir sem kunna að verða teknar? Þar staldra ég aftur við nýju lögin.

Ég staldra þar aftur við nýju lögin vegna þess að stjórnin á í rauninni að taka ákvarðanir eða veita grænt ljós á allar meiri háttar rannsóknir sem Samkeppniseftirlitið ræðst í. Og viti menn, við slíkar ákvarðanir er sérstaklega tekið fram í greinargerð með þessum lögum að stjórnin skuli sjá til þess að meðalhófs sé gætt. Hvað þýðir það? Var meðalhófs gætt í rannsókn á olíufélögunum? Á tryggingafélögunum? Er með öðrum orðum verið að þrengja verksvið Samkeppnisstofnunar að þessu leyti?

Við þurfum að fá svör vegna þess að spurningarnar gerast áleitnar. Og áleitin spurning er sú að þessum lögum sé stefnt gegn þeim sem nú stýra för í Samkeppnisstofnun, að menn séu að losa sig við forstjórann og þá sem hafa stýrt Samkeppnisstofnun á undanförnum missirum og ráðist í verkefni sem hafa verið mjög umdeild en skilað almenningi árangri að því leyti að lokið hefur verið tekið af spillingarbrunni. Er það þetta sem menn eiga við þegar talað er um að hin nýja stjórn skuli gæta meðalhófs? Hvað þýðir það?

Ég velti því fyrir mér hvort það er heppilegt fyrirkomulag yfirleitt að ráðherra skipi stjórn í þessari stofnun sem síðan stýrir henni hvað þann pólitíska þátt snertir — ég er ekki að tala þar um flokkspólitík — í hvaða stórverkefni eigi að ráðast. Ég spyr: Gæti jafnvel verið heppilegra til þess að hin pólitísku tengsl verði skýrari að hafa sama hátt á og í Neytendastofu, að það verði bara ráðherra sem skipar forstjórann og síðan verði ráðherrann ábyrgur gagnvart þinginu? Ég hef ekki sjálfur komist að niðurstöðu í því efni.

Ég teldi hins vegar að heppilegasta fyrirkomulagið væri allstór stjórn sem skipuð væri af fleiri aðilum en einum, en það er ráðherrann einn sem á að skipa. Engin skilyrði eru sett, hvorki um tengsl stjórnarmanna við fyrirtæki Framsóknarflokksins né fyrirtæki almennt í þjóðfélaginu. Menn yggla sig nokkuð hér í salnum, sérstaklega framsóknarmenn, en þetta er bara staðreynd. Það er bara staðreynd sem taka þarf alvarlega í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi að hinar miklu einkavæðingar undanfarinna ára hafa opnað leið fyrir flokksgæðinga að verðmætum eignum þjóðarinnar. Þetta eru bara staðreyndir. Við eigum að tala alveg opið og tæpitungulaust um þetta því svona er það.

Síðan var þetta með gíslinguna. Það fannst mér ansi gott hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann spurði með nokkurri hneykslan og jafnvel þjósti hvort mönnum fyndist það óeðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn gæfi sér góðan tíma til að skoða þessi lög. Það væri fullkomlega eðlilegt. Ég skrifa alveg upp á það, en ég skrifa líka upp á það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji fá tíma til að skoða málin. Og Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn og síðast en ekki síst Alþingi allt og vinnunefndir þess. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og ég mun leggja áherslu á að við fáum mjög góðan og rúman tíma til að skoða þessi mál niður í kjölinn og að ekki verði reynt að hraða afgreiðslu þessara laga eins og því miður hefur viljað brenna við þegar ráðist er í grundvallarbreytingar í stjórnkerfinu.

Komið hafa fram mjög alvarlegar ásakanir vegna þessa frumvarps. Hverjar eru þær? Menn hafa sagt að verið sé að veikja samkeppnislögin. Við þurfum að skoða það. Mér hafa fundist koma fram mjög sannfærandi rök fyrir því. Menn hafa sagt að vegna þeirra kerfisbreytinga sem verið er að framkvæma með þessum lögum muni Samkeppnisstofnun veikjast. Er það rétt? Ef svo er þá þarf að gera breytingar á þessum frumvörpum.

Síðast en ekki síst og það finnst mér vera mjög alvarlegt mál: Getur verið að með þessu frumvarpi og þeim lögum sem menn ætla að koma hér í gegnum þingið sé verið að refsa stjórn Samkeppnisstofnunar? Við þurfum að ræða þetta opinskátt í þinginu vegna þess að ef svo er þá er það grafalvarlegt mál.