131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:29]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nú ekki rétt að segja að ég óttist markaðstorgið en það má vel vera að ég óttist þá ríkisstjórn sem hér er einráð í landinu og virðist ekki ganga fyrir öðru en að koma öllu lifandi og dauðu út á þetta markaðstorg. Þegar þangað er komið tel ég hins vegar mjög brýnt að við höfum skýra löggjöf um hvernig aðilar skuli bera sig að á markaði. Þess vegna er þessi löggjöf mjög mikilvæg og það er mikilvægt að til hennar sér vandað.

Ég vil gjarnan enda á þeim jákvæðu nótum að ég vil taka hv. þm. Pétur H. Blöndal á orðinu og vona að alvara sé að baki þeirri yfirlýsingu hans að þessi mál fái mjög rækilega og ítarlega skoðun í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.