131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[19:00]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður veit ákaflega vel hvernig aðdragandi þessa máls er. Það var skipuð nefnd og hún skilaði niðurstöðum og í framhaldi af því eru unnin frumvörp. Það sem ég sagði áðan var að haft var samráð við og fundað með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar (JóhS: Og eru þeir ...?) um þessi mál. Það þarf ekkert að greina nákvæmlega frá því hvað fer fram á lokuðum fundum. Við áttum að sjálfsögðu fundi með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar. En hugmyndirnar koma úr nefndinni. Þar sat ekki Samkeppnisstofnun. Þetta veit hv. þingmaður allt saman eftir þessa umræðu. Það hefur í rauninni því miður ekkert svo margt nýtt komið fram í þessari umræðu. Það hefur nú dálítið verið staglast á því sama.

Hvað varðar nefndarstarfið þá munu starfsmenn viðskiptaráðuneytisins að sjálfsögðu koma á fundi efnahags- og viðskiptanefndar og ég veit ekki betur en að þeir hafi fram til þessa og munu líka hér eftir svara þeim spurningum sem þar eru bornar upp af samviskusemi. Það eina sem ég get sagt hér er að þeir munu leggja sig fram um að svara af samviskusemi þeim spurningum sem bornar eru upp og ég vona að það verði til þess að aðstoða efnahags- og viðskiptanefnd við að leysa úr málum og skila þessu máli (JóhS: Fáum við álitið um þarfagreininguna?) inn í þingið.