131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[19:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Fyrirmyndin er eins og ráðherra segir dönsk, en þó kannski ekki að öllu leyti eins og þar er gert. Við erum náttúrlega að tala um hina íslensku útgáfu.

Ég held að það sé full ástæða fyrir bæði hæstv. ráðherra og auðvitað nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd að skoða það í fullri alvöru hvort hægt sé að halda því fram með góðum rökum að talsmaður neytenda sé sjálfstæður eins og hér er haldið fram. Ég held því fram að svo sé ekki. Vera má að hann sé óháður fyrirmælum forstjóra. En hvert er athafnafrelsi talsmanns neytenda sem ekki hefur mannaforráð og ekki hefur sjálfstæðan fjárhag? Í mínum huga er það lykilatriði, algjört grundvallaratriði til þess að embætti talsmanns neytenda geti fúnkerað, geti gert gagn og verði það embætti sem ég held að við viljum að það verði. Ég held að við höfum öll metnað til þess að þetta verði stöndugt og gott embætti sem þjóni hinum almenna neytanda og aðilum á frjálsum markaði vel.

Ég vildi gjarnan ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra um hvort hún hyggist beita sér fyrir hærri framlögum til neytendamála verði þetta frumvarp að lögum. Hvernig svo sem hin endanlega útgáfa verður þá tel ég fulla þörf á því að hækka þau framlög og gera þessari nýju stofu kleift að sinna verkefnum sínum af sóma.

Svo er spurning sem skiptir kannski ekki öllu máli við 1. umr. Henni verður væntanlega svarað í nefnd ef ekki af ráðherra. Það varðar upplýsingar um neytendamál sem einhvern veginn gætu varðað öryggi ríkisins eða utanríkismál.