131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Miðlun vátrygginga.

551. mál
[20:07]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um miðlun vátrygginga á þskj. 832, sem er 551. mál þingsins.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/92/EB, um miðlun vátrygginga, frá 9. desember 2002, sem tekin var upp í EES-samningi með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í september 2003. Þá eru í frumvarpinu ýmis ákvæði er lúta að starfsemi þeirra er starfa við miðlun vátrygginga og nauðsynlegt þótti að kveða á um í nýrri heildarlöggjöf um miðlun vátrygginga.

Frumvarpið hefur að geyma almennar reglur um miðlun frum- og endurtrygginga. Reglurnar lúta annars vegar að því hverjir hafa heimild til að miðla vátryggingum og hvaða hæfiskröfur þeir þurfa að uppfylla. Hins vegar er fjallað um starfsemi, starfshætti og upplýsingagjöf til neytenda.

Frumvarpinu er í meginatriðum skipt í tvo hluta, annars vegar reglur er lúta að störfum og starfsháttum vátryggingamiðlara og hins vegar reglur er lúta að starfsemi vátryggingaumboðsmanna. Reglurnar eru að miklu leyti sambærilegar og spegla kaflarnir hvor annan.

Ein af meginbreytingum sem frumvarpið leggur til er ný skilgreining á hugtakinu miðlun vátrygginga. Er skilgreiningin mun víðtækari en í núgildandi lögum og fellur starfsemi fleiri aðila því undir gildissvið frumvarpsins, svo sem umsýsla banka og sparisjóða með vátryggingar. Er þannig leitast við að tryggja jafnræði milli allra þeirra aðila er koma að miðlun vátrygginga og verndun viðskiptamanna þeirra.

Lagðar eru til nýjar reglur er varða vátryggingaumboðsmenn. Samkvæmt núgildandi lögum og reglum er starfsemi vátryggingaumboðsmanna ekki skráningar- eða leyfisskyld en þeir starfa á ábyrgð vátryggingafélaga. Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi vátryggingaumboðsmanna verði háð skráningu vátryggingafélags og áður en vátryggingafélag skráir vátryggingaumboðsmann skuli gengið úr skugga um að vátryggingaumboðsmaður og starfsmenn hans hafi nægilega þekkingu til að bera til að miðla vátryggingum. Þá er gert að skilyrði að slíkir aðilar séu lögráða og hafi forræði á búi sínu.

Vátryggingamiðlarar munu samkvæmt frumvarpinu eftir sem áður þurfa að sækja um starfsleyfi áður en þeir geta hafið starfsemi. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið verði starfsleyfisveitandi en ekki viðskiptaráðherra eins og nú er. Slík skipan er í samræmi við starfsleyfisveitingar á sviði fjármagnsmarkaðar.

Í frumvarpinu er lagt er til að tekin verði upp reglan um eitt starfsleyfi sem felur í sér að á grundvelli starfsleyfis sem veitt er í heimaríki geti viðkomandi starfað í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins með stofnun útibús eða veitt þar þjónustu án starfsstöðvar. Þá er í frumvarpinu lagt til að gerðar verði auknar kröfur til þekkingar og hæfis stofnenda, stjórnenda, framkvæmdastjóra og vátryggingasölumanna. Er m.a. lagt til að einstaklingur sem sækir um leyfi til vátryggingamiðlunar og starfsmaður vátryggingamiðlara sem hefur umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun hafi staðist próf í vátryggingamiðlun.

Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um starfshætti þeirra er miðla vátryggingum og um upplýsingagjöf við miðlun vátrygginga. Í frumvarpinu er lögð mikil áhersla á að vátryggingataki hafi nægilega vitneskju um þá vátryggingu sem hann hyggst taka. Meðal annars er gert ráð fyrir að vátryggingamiðlari og vátryggingaumboðsmaður greini aðila frá forsendum sem liggja að baki ráðgjöf þeirra um val á vátryggingum. Auk þess er áhersla lögð á upplýsingar um helstu atriði vátrygginga og atriði er varða vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmenn sjálfa séu upplýst áður en gengið er frá vátryggingasamningi, hann endurnýjaður eða honum breytt.

Lagt er til að frumvarpið öðlist gildi strax við samþykkt þess en þó er gert ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði að starfandi vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn hafi frest til 1. júlí 2005 til að uppfylla ákvæði laganna. Auk þess er lagt til að veittur verði sex mánaða aðlögunartími er varðar hæfisskilyrði vátryggingasölumanna. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfseminni samkvæmt lögum líkt og nú er.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um frumvarp til laga um miðlun vátrygginga og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.