131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:16]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Í framhaldi af setningu laga um kosningar til Alþingis nr. 24 árið 2000 fól þáverandi forsætisráðherra sérstakri nefnd þingmanna að gera tillögur um hvernig mætti auka aðstoð við starf þingmanna í hinum nýju og stóru kjördæmum á landsbyggðinni. Nefndin skilaði, eins og hér hefur komið fram, niðurstöðum haustið 2000 og í framhaldinu varð það að samkomulagi milli forustumanna stjórnmálaflokkanna að leggja til við Alþingi að í fjárlögum ár hvert yrði tiltekin fjárhæð ætluð til stjórnmálaflokka með hliðsjón af nýrri kjördæmaskipan og breyttum aðstæðum þingmanna af þeim sökum.

Í fjárlögum ársins 2001 voru í fyrsta skipti veittar 25 millj. kr. í þessum tilgangi. Þessari fjárhæð var skipt til stjórnmálaflokkanna sem áttu kjörna fulltrúa á Alþingi í hlutfalli annars vegar við fjölda þingmanna í þessum kjördæmum og hins vegar fjölda atkvæða flokkanna í landsbyggðarkjördæmunum. Fjárhæð þessi var óbreytt í fjárlögum 2002 og hefur nú hækkað í 40 millj. í fjárlögum ársins 2004. Ég veit ekki betur en að ríkt hafi ágæt sátt um þessa tilhögun.

Það þing sem nú starfar er annað í röðinni eftir að landsbyggðarkjördæmunum fækkaði og þau voru stækkuð. Það má segja að það hafi verið í höndum stjórnmálaflokkanna hvernig þessum fjármunum hefur verið ráðstafað og ég hef talið eðlilegt að þeir hafi ráðstafað þeim í þágu starfs í þessum kjördæmum eins og tilefni er til, a.m.k. hefur það verið gert í mínum flokki og ég geri ráð fyrir að þannig hafi það verið í öðrum stjórnmálaflokkum. En ég tel sjálfsagt að forustumenn stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi ræði fyrirkomulag þessara greiðslna í ljósi þeirrar reynslu sem hefur orðið af stækkun kjördæmanna og þeirri reynslu sem hefur fengist undanfarin tvö ár. Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til að beita mér fyrir slíkum viðræðum milli forustumanna flokkanna.