131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:19]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Á þessari mínútu sem ég hef er ekkert hægt að gera nema taka undir það sem hér hefur verið sagt um undirbúninginn, þ.e. nefndarskipunina. Ég meðal annarra átti sæti í henni og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hér er. Það er rétt að þessi þverpólitíska nefnd kom sér saman um tillögu sem lögð var fram ekki bara í þessu efni heldur ýmsum öðrum. Auðvitað verður að harma að ekki hefur allt af því komið til framkvæmda eins og ætlað var. Við kölluðum þetta reyndar bráðaaðgerðir, bráðatillögur.

Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra og get sagt að í mínum flokki er þessari upphæð vegna landsbyggðarkjördæma skipt út til landsbyggðarkjördæmanna og flokkanna þar og nýtist að sjálfsögðu þar.

Þó er alvarlegt að þessi upphæð er engan veginn í takt við það sem lagt var til og hún er of lág þannig að ég fagna því líka sem hæstv. forsætisráðherra sagði í lokin, að hann mundi sem forsætisráðherra beita sér fyrir því og þá væntanlega við næstu fjárlagagerð að þessi upphæð hækkaði töluvert vegna þess að við erum á öðru ári í þessum nýju kjördæmum og okkur veitir ekki af að fara að fikra okkur nær því að geta (Forseti hringir.) tekið þetta aðstoðarmannakerfi upp eða á annan hátt eftir því hvernig flokkarnir vilja ...