131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:42]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég sagði aldrei að menn væru að beygja sig fyrir því sem vitlaust er. (Gripið fram í.) Það er undarlegt með suma hv. þingmenn að þeir geta aldrei haft rétt eftir. Það er a.m.k. mjög algengt í þessari umræðu að þingmenn hafa ekki rétt eftir það sem sagt er.

Ég er einfaldlega að segja að fara beri að lögum. Ég veit ekki betur en a.m.k. þingmenn Alþýðuflokksins á sínum tíma hafi staðið að því að stofna Evrópska efnahagssvæðið. Gleymdist það þegar þeir fóru í Samfylkinguna? Núna tala þeir eins og það sé ekki til í dæminu.

Síðan eru menn, t.d. hv. þm. Jón Bjarnason, með óljósar hugmyndir um samrekstur samkeppnisaðila á grunnneti. Ég held að þær séu algerlega óraunhæfar. Ég minni á að Póst- og fjarskiptastofnun reyndi að koma á samstarfi milli aðila fjarskiptamarkaðarins um uppbyggingu eins dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp. Það var reynt og hvernig tókst það? Það mistókst þar sem aðilar á markaði töldu slíkt samstarf ekki þjóna hagsmunum sínum. Finnst mönnum líklegra að það takist þá um annað? Ég veit ekki betur en þeir aðilar sem eru að kvarta undan því að grunnnetið eigi ekki að seljast sérstaklega hafi einmitt hafnað því að taka upp slíkan samrekstur fyrir stafrænt sjónvarp.

Það liggur hins vegar ljóst fyrir að verið er að efla Samkeppnisstofnun. Það er líka verið að efla Póst- og fjarskiptastofnun. Búið er að breyta lögum um þá stofnun. Vissulega kemur líka til greina að fara út í frekari lagabreytingar, ef það er nauðsynlegt, til að tryggja jafnan aðgang allra að grunnþjónustunni. Það höfum við sagt í umræðunni.