131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:45]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Árið 2002 var samþykkt hér á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju. Í þessu frumvarpi var hæstv. iðnaðarráðherra heimilað að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni. Í lagatextanum stendur svo, með leyfi forseta:

„Helmingur söluandvirðisins skal renna til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Steinullarverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“

Í svari frá hæstv. iðnaðarráðherra vegna fyrirspurnar sem ég lagði fram fyrr í vetur kom fram að þessi helmingur hefði verið 105 millj., ef ég man rétt, og þar kom fram að þessum peningum hefði verið varið í fiskeldi, fyrst í gjaldþrota fyrirtæki og síðan fiskeldisrannsóknir við Hólaskóla.

Þegar umræður á hinu háa Alþingi frá árinu 2002 eru skoðaðar, þegar verið var að ræða þetta frumvarp, kemur berlega í ljós að málið var markaðsfært, ef svo má segja, kokkað þannig ofan í þjóðina að hér ætti að losa um eignarhlut ríkisins í fyrirtæki á Sauðárkróki og að peningana ætti að nota til góðra verka, til atvinnuuppbyggingar og þá hugsanlega líka samgöngubóta. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði þetta margoft í ræðum sem ég hef verið að lesa og hún hafði þar á orði að hér væri heldur betur búið að finna feitan sjóð sem mætti til að mynda nota í að byggja upp svokallaðan Þverárfjallsveg á milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Það yrði aldeilis búhnykkur fyrir atvinnulíf í Skagafirði því að þetta mundi bæta samgöngur, m.a. við suðvesturhornið, og þetta yrði ekki síst þá Steinullarverksmiðjunni sjálfri til framdráttar. Heimamenn margir hverjir bentu hins vegar á að þetta væri mikil og góð mjólkurkýr og margir lögðust harðlega gegn því að bæði sveitarfélagið eða bæjarfélagið Sauðárkrókur og líka ríkið seldu eignarhlut sinn í þessari verksmiðju.

Við vitum hvað varð um peningana, þ.e. við vitum alveg hvað varð ekki um þá peninga sem fengust fyrir Steinullarverksmiðjuna á sínum tíma. Við vitum, og það er alveg á hreinu, að peningarnir fóru ekki í samgöngubætur.

Því spyr ég hæstv. ráðherrann:

Hvers vegna var engu af söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar varið til samgöngubóta í sveitarfélögum sem áttu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi verksmiðjunnar?