131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:54]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu og minna á það hér að á sínum tíma þegar undirbúningur hófst að byggingu steinullarverksmiðju hér á landi hafði verið tekin fyrsta skóflustunga að slíkri verksmiðju í Þorlákshöfn. Það var á sínum tíma pólitísk ákvörðun að flytja hana á Sauðárkrók.

Nú er sú ákvörðun tekin að selja verksmiðjuna og nýta fjármunina í því heimahéraði. (Gripið fram í: Loka fyrirtækinu.) Það er verið að auka á landflutninga með flutningi á þessum vörum til höfuðborgarsvæðisins, stærsta markaðssvæðisins. Við sjáum það a.m.k. í dag að það hefði verið skynsamlegra að byggja þessa verksmiðju í Þorlákshöfn.

Þar sem við erum að tala um sölu Landsvirkjunar, og margar slíkar stöðvar eru einmitt á Suðurlandi, má ætla að Sunnlendingar fái notið þeirrar miklu uppbyggingar og orku sem er í því kjördæmi þegar þær eignabreytingar eiga sér stað.