131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:02]

Forseti (Birgir Ármannsson):

Af þessu tilefni vill forseti taka fram að um það hefur verið gott samkomulag, eins og hv. þingmaður nefndi, milli forseta þingsins og formanna þingflokka að reyna að greiða fyrir því að unnt yrði að svara fleiri fyrirspurnum í hverri viku en hægt var fyrri hluta vetrar. Það hefur, eins og kunnugt er, skilað þeim árangri að listi yfir fyrirliggjandi fyrirspurnir hefur styst. Hins vegar er, eins og hv. þingmanni er einnig kunnugt um, alltaf nokkuð snúið að skipuleggja fyrirspurnatímann þannig að henti bæði fyrirspyrjendum og ráðherrum, enda viðvera beggja nauðsynleg við slíka umræðu.

Sá forseti sem hér talar telur aftur á móti rétt að taka þetta að nýju til umræðu í ljósi þeirra aðstæðna sem upp hafa komið í dag og síðastliðinn miðvikudag með það að markmiði að finna lausn sem bæði tryggi að dagskrá fyrirspurnafundar geti gengið vel fyrir sig og eins að þeim fyrirspurnum sé svarað sem fram eru bornar.