131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:13]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá fyrirspurn sem hér var borin fram af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni.

Ég bendi á að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa unnið gríðarlega gott verk við forgangsröðun í samgöngumálum á þessu svæði. Í skýrslu þeirra varðandi þennan vegarkafla leggja þau afar mikla áherslu á að hann hafi forgang á svæðinu sem um ræðir. Það er mjög ánægjulegt og gott til þess að vita að sveitarstjórnarmenn hafi þar náð fullri samstöðu um þetta mál.

Ég tek undir þá skýrslu sem SASS hafa lagt fram í þessu máli. Jafnframt vil ég geta þess að þegar ég keyrði til höfuðborgarinnar í morgun voru komin tæki að hinum nýja kafla sem er verið að byrja á, frá Skíðaskálabrekku og niður fyrir Kaffistofu. Það er framkvæmd sem mun kosta tæpar 300 millj. kr. og mun skipta afar miklu máli.