131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:18]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör og hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni, ekki síst hv. þm. Atla Gíslasyni sem ég held að sé sumar- eða heilsárshúseigandi á þessu svæði og þekkir þetta ágætlega af eigin raun. Það kom glöggt fram í umræðunum að mikil samstaða er um þessar framkvæmdir meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna á þessu svæði og brýnt að framkvæmdirnar fari inn á samgönguáætlun þegar hún verður endurskoðuð. Umferðaröryggi og hagkvæmni ráði för, sagði hæstv. ráðherra, og ég tek eindregið undir það með honum. Enginn velkist í vafa um að hvort tveggja er til staðar þegar að þessum framkvæmdum kemur, þörf á auknu öryggi og mikil hagkvæmni af framkvæmdunum, þar sem umferð um þennan veg er svo mikil sem nú og áður hefur verið rakin.

Aukningin er líka mikil á milli ára þannig að þetta hlýtur að teljast til brýnustu framkvæmda í samgöngumálum okkar á næstu missirum. Það er ánægjulegt að sjálfsögðu að náðst hefur jafneindregin samstaða og náðst hefur meðal sveitarfélaga á Suðurlandi sem settu þetta í forgang á þingi sínu í fyrrahaust og samstaða órofa einnig um það meðal þingmanna kjördæmisins. Það ætti að vera hvati að því að málið fái byr og að við sjáum á næstu árum að úr verði bætt og verstu og hættulegustu kaflarnir á veginum verði lagfærðir þannig að vel þyki og vel verði úr bætt.

Ég þakka aftur hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Eftir liggur að áætlun um mögulegan kostnað liggur fyrir og þá sérstaklega hlýtur að standa eftir hvað varðar þriggja akreina veg, tveir plús einn, sem virðist vera mjög hóflegur kostnaður á bak við. Hann ætti að geta orðið sá kostur sem sameinast verður um.