131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stúlkur og raungreinar.

371. mál
[15:26]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands fyrir árin 1994–2003 er lítill sem enginn kynjamunur í fjölda nemenda sem stundar nám í raungreinum í framhaldsskólum. Árið 2003 voru 18% stúlkna við nám í framhaldsskólum skráð í raungreinanám en 20% pilta. Árið 2000–2002 voru hlutföllin 18% stúlkna og 19% drengja.

Næstu sex árin þar á undan var þetta hlutfall á bilinu 15–17% og kynjamunurinn ýmist enginn eða 1–2%. Þegar litið er á hlutfall þeirra sem ljúka stúdentsprófi af raungreinabrautum sést að fleiri stúlkur en drengir hafa lokið þeim undanfarin sex skólaár. Í fyrra voru stúlkur 54% þeirra sem luku stúdentsprófum á raungreinabrautum og strákarnir voru 46%. Ég tel því, virðulegi forseti, að ástæða sé til að hækka hlutfall nemenda í raungreinum almennt í framhaldsskólum með því að glæða áhuga beggja kynja á þeim námsgreinum.

Um þessa þróun hefur vísinda- og tækniráð ályktað sérstaklega og ég hef nýlega skipað nefnd með fulltrúum menntastofnana og atvinnulífsins með það hlutverk að gera tillögur um leiðir til að glæða áhuga nemenda, bæði á grunn- og síðan framhaldsskólastiginu. Nefndin skilaði nýverið til mín fyrstu tillögum sem gera ráð fyrir aðgerðum til að auka hæfni og sjálfstraust kennara til að koma raunvísindalegu efni til skila til nemendanna og vekja áhuga þeirra. Þær tillögur snúa fyrst og fremst að raungreinakennslu í grunnskólum því að rannsóknir bæði hér á landi og erlendis sýna að byrja þarf auðvitað á byrjuninni.

Kennaranemar eru að stærstum hluta fólk úr mála- og félagsfræðibrautum framhaldsskólanna og mjög fáir þeirra velja raungreinakjörsvið í kennaramenntuninni. Kennurum er hins vegar ætlað að ráða við nær allar raungreinar grunnskólans á yngri skólastigum. Óöryggi kennara, segja nefndarmenn, við meðferð hugtaka og fyrirbæra úr raunvísindum smitar síðan mjög fljótt til nemenda og þessar greinar hafa ranglega fengið á sig orð fyrir að vera erfiðar og jafnvel leiðinlegar. Nemendur sem vaxa upp við þessa mynd á raungreinum forðast snertifleti við raunvísindi í menntun og starfsvali þegar fram í sækir, þar á meðal þeir sem leggja fyrir sig kennslu. Þannig lokast vítahringurinn sem nú er orðið brýnt að brjótast út úr.

Aðrar tillögur frá þessari ágætu nefnd fela m.a. í sér hugmyndir um tilraunaverkefni sem miða að því að endurmennta og þjálfa raungreinakennara í grunnskólum til að nýta betur verklega vinnu við kennsluna og skoða síðan aðferðir við kennslu grunnhugtaka í raungreinum.

Þá hef ég nýlega veitt Háskólanum í Reykjavík heimild til að bjóða upp á kennaramenntun. Það var gert með því skilyrði að námsframboð skólans beindist sérstaklega að menntun kennara á sviði stærðfræði og raunvísinda því að það er skortur á kennurum á þessu sviði, eins og margoft hefur komið fram.

Á 10 ára tímabili, 1994–2003, hefur nemendum sem velja raungreinar í framhaldsskólum fjölgað umtalsvert, þ.e. um tæp 55%, á meðan heildarfjöldi nemenda í framhaldsskólum hefur vaxið um tæp 30%. Það er athyglisvert að þegar að háskólanámi kemur er kynjaskipting raungreinanemenda með talsvert öðru sniði en í framhaldsskólum. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni fyrir árið 2003 voru aðeins 33% háskólanemenda í raungreinum konur en 67% karlar. Í heildina var kynjaskipting nemenda í háskólanum árið 2003 hins vegar þannig að konur voru um 61% nemenda en karlarnir 39%. Þetta er að sjálfsögðu umhugsunarvert og ákveðið áhyggjuefni.

Til þess að auka hlut stúlkna í raunvísindum ætti fyrst og fremst að beina athyglinni að námsvali á háskólastigi eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á í ræðu sinni og hvetja konur til náms í raungreinum en jafnframt huga að þáttum í atvinnulífinu sem síðan ákvarðar val þeirra. Hér skipta auðvitað góðar fyrirmyndir miklu máli.

Verkefnið Konur í vísindum er hluti jafnréttisáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2005–2008 og hefur það hlutverk að fylgja eftir markmiðinu að vinna að aukinni þátttöku kvenna í vísindum og vera til ráðgjafar um stöðu kvenna í rannsókna- og vísindastarfi. Þar verður safnað nýjum tölulegum upplýsingum um hindranir sem standa í vegi fyrir jafnræði milli kynjanna.

Vísinda- og tækniráð ályktaði sérstaklega um mikilvægi þess að fylgjast vel með þróuninni á þessu sviði, þ.e. vísindasviðinu, og ég mun fylgja þeim hugmyndum eftir. Það er líka rétt að undirstrika að átak til að tryggja jafnrétti á þessu sviði vísinda og rannsókna snýst ekki eingöngu um að standa vörð um réttindi allra þegna óháð kynferði, heldur er það aðferð til að efla sjálf vísindin og fullnýta mannauð kvenna jafnt sem karla. Menntun og þekking kvenna virðist oft fara forgörðum við núverandi aðstæður. Áhrifaleysi kvenna í vísindum hefur þá í för með sér að samfélagið sjálft fer á mis við hugmyndir þeirra og fjárfesting skattgreiðenda í menntun kvenna skilar af þeim sökum e.t.v. ekki sambærilegum arði og menntun karla.