131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stúlkur og raungreinar.

371. mál
[15:32]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina og fyrir ágæt svör ráðherra. Til stendur að stytta nám til stúdentsprófs og ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt voru jafnvel taldar líkur á því að það væri pottur brotinn í menntun kennara að einhverju leyti til að ráða við alla kennsluna, einnig hvað varðar raungreinar. Við styttingu náms til stúdentsprófs mun raungreinanámið að einhverju leyti færast í auknum mæli í grunnskólann og þess vegna ber að hafa vissar áhyggjur af því.