131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stúlkur og raungreinar.

371. mál
[15:35]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Örstutt um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að það er algert lykilatriði til þess að stytting námstíma til stúdentsprófs komi til með að ganga upp að vel verði staðið að endurmenntun kennara, sérstaklega á sviði raungreina.

Mér heyrist að ég og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir séum sammála í meginatriðum um þetta mikilvæga mál. Engu að síður ítreka ég að það er ekki eingöngu ástæða til þess að hvetja stúlkur til að fara í raungreinar og á þær brautir sem eru sérstaklega taldar erfiðar, þyngstu stærðfræðibrautirnar og náttúrufræðiáfangana, heldur líka drengina því það er alveg ljóst miðað við þær niðurstöður sem við fáum út úr PISA og þann fjölda sem við sjáum af drengjum og stúlkum í raungreinum að við þurfum að auka fjölda þeirra sem fara á raungreinabrautirnar, efla áhugann. Þess vegna bind ég miklar vonir við starfshópinn sem ég skipaði, sérstaklega með það í huga að efla áhuga unga fólksins okkar á raungreinum og að niðurstöður úr þeim hópi komi til með að skila okkur fjölda nemenda þegar fram í sækir í raungreinanámið.

Fleiri þættir spila auðvitað inn í eins og efling námsráðgjafar til þess að kynna þann heillandi heim sem raungreinaheimurinn er. Það er því af mörgu að taka og ég er sérstaklega ánægð yfir því að þingheimur skuli lýsa yfir eindregnum stuðningi við þær aðgerðir sem þegar hafa verið settar fram og er farið af stað með.