131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:50]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Fyrirspurnin var einföld en svarið nokkuð langt og innihald þess í raun að það eigi ekki að stofna háskóla á Vestfjörðum heldur koma á samstarfi rannsóknastofnana við háskóla annars staðar. Það er náttúrlega þvert á það sem stendur í flokkssamþykkt Framsóknarflokksins. Það er tímanna tákn að hér mæta eingöngu til umræðunnar þingmenn stjórnarandstöðunnar og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Mér virðist það sýna hvernig þetta mál er í pottinn búið.

Í raun skulda þeir flokkar sem fara með völd núna Vestfirðingum störf. Það leikur enginn vafi á því. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa komið á kvótakerfi og hrifsað störfin í burtu af Vestfjörðum. Það er kominn tími til að þeir skili einhverjum störfum vestur.