131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:53]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir innlegg þeirra.

Svör ráðherrans eru í raun eftirfarandi:

Það sem gera á er ekki háskóli.

Það sem gera á verður ekki með kennslu.

Það sem koma á á fót á að koma í veg fyrir samkeppni á háskólastigi vegna þess að aðrir háskólar eiga að stjórna því hvað verður gert.

Það sem gera á er Fræðslumiðstöð Vestfjarða í nýjum búningi, gamalt vín á nýjum belg, sem hefur tvö markmið. Fyrst og fremst á stofnunin að einbeita sér að þörfum þeirra sem afla sér menntunar á framhaldsskólastigi og í öðru lagi, eins og segir í viðskiptaáætlun sem kynnt var í gær, með leyfi forseta:

„Háskólasetrið mun keppast við að búa svo vel að nemendum háskólanna að það þyki betri kostur að stunda fjarnám heldur en að flytja búferlum til þess að sækja hefðbundið háskólanám. Metnaðurinn felst í því að styrkja fjarnámsmöguleika Vestfirðinga fyrst og fremst.“

Þetta, virðulegi forseti, þótt ég voni að úr þessu muni rætast, er ekki grunnur að háskóla. Þetta er ekki grunnur að háskólastarfi heldur fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að háskóli geti risið á Vestfjörðum, ætli menn að aka þessa braut áfram. Þessi vegur er háll sem áll og mjög auðvelt að enda ofan í fjöru, aki menn eftir þessum vegi eins og ætlað er. Vestfirðingar vilja háskóla. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti.