131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:31]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Útvarpsstjóri hefur farið að fyrirmælum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og tilkynnt að hann hafi ráðið þeirra mann í starf fréttastjóra útvarps. Sá maður er góðra gjalda verður en hann var ekki í hópi þeirra fimm umsækjenda sem forstöðumaður fréttasviðs mælti með, að höfðu samráði við starfsmannastjóra og ráðgjafa. Þeir hafa allir miklu meiri starfsreynslu og þekkingu á fréttavettvangi og allir hafa þeir þá stjórnunarreynslu og peningavit sem til þarf í þetta mikilvæga starf.

Fréttastofa útvarps er ein virtasta fréttastofa landsins, ef ekki sú allra virtasta. Hún er kjölfesta í íslenskri fréttamennsku og án undantekningar njóta starfsmenn hennar almennrar viðurkenningar fyrir störf sín. Útvarpsstjóri hefur því miður ekki treyst sér til að standa vörð um hagsmuni almannaútvarpsins, nú þegar þeir rekast á boð stjórnarflokkanna. Athyglisvert er þó að í sérstakri yfirlýsingu lýsir hann hvergi eiginlegum stuðningi við þann sem valinn var, heldur skýtur sér á bak við meiri hluta útvarpsráðs með þeirri skýringu að enginn annar hafi fengið atkvæði í ráðinu. Það er misskilningur hjá útvarpsstjóra því að aðrir útvarpsráðsmenn töldu að sjálfsögðu að útvarpsstjóri ætti að velja einn af umsækjendunum fimm sem hin faglegu rök stóðu með.

Forseti. Hæstv. menntamálaráðherra getur ekki verið hér í dag og svarað spurningum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hugðist leggja fyrir hana. Mér skilst að sú umræða fari fram á mánudaginn. Staða málsins er þó þannig að það er ekki hægt að láta það liggja í þagnargildi hér í dag.

Ég harma að það skuli vera nauðsynlegt að mótmæla því á Alþingi að stjórnarflokkarnir misnoti með þessum hætti það vald sem þeir fara með á Ríkisútvarpinu í krafti úreltra stjórnarhátta. Ég bendi á það vantraust sem skapast hefur við þessa atburði hjá starfsmönnum gagnvart útvarpsráði og ríkisstjórnarmeirihlutanum, bendi á það uppnám sem nú er orðið í fyrirtækinu, bendi á hina alvarlegu samþykkt fréttamanna frá í gær og bendi á uppsögn eins af reyndustu og hæfustu stjórnendum á Ríkisútvarpinu, Jóhanns Haukssonar.

Í þágu Ríkisútvarpsins og almannahags fer ég fram á það úr þessum ræðustóli hér að sá maður sem brást í stöðu sinni sem þjónn almennings í landinu, útvarpsstjórinn Markús Örn Antonsson, endurskoði ákvörðun sína eða axli ábyrgð á mistökum sínum og undanslætti við flokksræðið á Ríkisútvarpinu og segi af sér störfum.