131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:33]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Meiri hluti útvarpsráðs og útvarpsstjóri hafa ákveðið að virða að vettugi faglegt mat og eðlilegar óskir forsvarsmanna fréttadeildar Ríkisútvarpsins við ráðningu fréttastjóra útvarps. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur af þessu tilefni sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Vinnubrögð útvarpsráðs og útvarpsstjóra eru Ríkisútvarpinu ósamboðin og grafa undan tiltrú á þessa mikilvægu stofnun í þjóðareigu. Þetta mál sýnir þjóðinni eina ferðina enn að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hika ekki við að láta lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð lönd og leið þegar meintir flokkshagsmunir og helmingaskipti þeirra í milli krefjast. Það verður að gera þá kröfu til pólitískt kjörinna fulltrúa að þeir rísi yfir þrönga flokkshagsmuni þegar þeim er falið að gæta almannahags.“

Ég vil taka undir áskoranir sem hér hafa komið fram um að útvarpsstjóri endurskoði afstöðu sína.

Fyrir þinginu liggur beiðni frá mér fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að fram fari utandagskrárumræða um Ríkisútvarpið. Ég fór þess á leit við hæstv. menntamálaráðherra að þeirri umræðu yrði hraðað í ljósi þessara atburða og í morgun staðfesti hún að hún væri reiðubúin að láta umræðuna fara fram í byrjun næstu viku. Þá verða þessi mál að sjálfsögðu til umræðu.