131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:37]

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð fyrst og fremst að lýsa ákveðinni undrun á því að þessi umræða skuli eiga sér stað í dag þegar fyrir liggur að forsendur eru til að ræða þetta eftir helgi þegar hæstv. menntamálaráðherra getur verið viðstödd. Eins og fram hefur komið í máli ræðumanna liggur fyrir að menntamálaráðherra var reiðubúin að ræða þetta í gær en vegna misskilnings milli manna gat ekki orðið af þeirri umræðu og varð þá niðurstaða hæstv. menntamálaráðherra og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að umræðan yrði á mánudaginn. Síðan hefur það einnig gerst að þingflokkur Vinstri grænna hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um málið (ÖJ: Það var gert áður.) og eins og kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar hefur menntamálaráðherra fallist á það og fallist á að flýta því. Ég held að það sé í sjálfu sér afskaplega óeðlilegt að fara út í mikla efnislega umræðu um þetta mál að menntamálaráðherra fjarstaddri. Eins og kunnugt er hefur menntamálaráðherra lögmætar fjarvistir í dag.

Ég vil hins vegar segja að mér finnst með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan reynir að gera þetta mál tortryggilegt og setja það í eitthvert pólitískt ljós (Gripið fram í.) þó að um það sé að ræða að mat manna á þeim eiginleikum sem fréttastjóri útvarpsins á að hafa sé mismunandi. Ég bendi á að þær dylgjur sem hafðar hafa verið í frammi um pólitík í þessu máli, meint pólitísk tengsl nýráðins fréttastjóra, hafa ekki verið studdar með neinum rökum. Það er bara fullyrt og fullyrt en ekki gerð nein tilraun til að renna stoðum undir þær fullyrðingar.