131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hvert er kjörorðið? Okkar fólk í fyrirrúmi. Er það ekki kjörorðið? Þannig er a.m.k. framkvæmdin hjá ríkisstjórnarflokkunum, jafnt í stórum sem smáum embættisveitingum. Þessi leiða venja stjórnarflokkanna er mjög svo niðurlægjandi fyrir fólkið í landinu, það er mitt mat. Það ber að hafna þessari pólitísku aðför sem núna er viðhöfð að hlutleysi Ríkisútvarpsins sem stjórnarflokkarnir eru með. Verklagið er spillt og gengur gegn lýðræðinu. Þessi pólitíska stýring vanvirðir störf og starfsreynslu fréttamanna og gerir lítið úr vinnubrögðum og faglegu mati á störfum þeirra.

Stjórnvöld hafa enn einu sinni orðið ber að flokkspólitískum forgangsráðningum þegar ráðið er í áhrifastöður sem þeim gætu gagnast í pólitískum áróðri og skoðanamyndun. Framkoman og lítilsvirðingin gagnvart starfsreynslu og starfsheiðri fréttamanna á Ríkisútvarpinu er fáheyrð og reynsla þeirra og þekking á starfinu einskis metin. Það er með hreinum ólíkindum ef ákvörðunin verður ekki endurskoðuð. Það ber útvarpsstjóra að gera en ég er svo sem ekki hissa á því þó að sjálfstæðismönnum finnist þetta eðlileg vinnubrögð.