131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nú stungin tólg þegar Morgunblaðinu blöskrar svoleiðis pólitísk misbeiting stjórnarflokkanna á aðstöðu sinni í útvarpsráði að það spanderar á það hálfum leiðara. Auðvitað er dapurlegt að þjóðin skuli þurfa að horfa upp á það að þessi glæsilega stofnun okkar, Ríkisútvarpið, sé stórlega löskuð eftir 14 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu. Fjárhagslega er þannig búið að útvarpinu að það er að komast í þrot, eigið fé þess er horfið, en miklu verri eru þó hin pólitísku afskipti, hin pólitíska misnotkun, hið pólitíska einelti sem Sjálfstæðisflokkurinn og nú báðir stjórnarflokkarnir hafa lagt Ríkisútvarpið í. Ýmist er ekki ráðið í stöður mánuðum og missirum saman, og starfsmönnum þannig haldið í óvissu, eða það er staðið að ráðningum eins og raun ber vitni. Setji menn sig nú í spor þess ágæta fólks sem hefur unnið Ríkisútvarpinu árum og áratugum saman af metnaði og dugnaði og staðið sig vel. Það er engin sýnileg ástæða fyrir því að framgangi þess í starfi er hafnað önnur en pólitík. Það má nefna til vitnis innanhússbréf útvarpsstjórans og ummæli ýmissa forkólfa stjórnarflokkanna sem ekki þóknast að störf þeirra séu gagnrýnd eins og kunnugt er.

Það er þannig að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum hefur verið nánast skilyrði til þess að menn fengju ráðningu í yfirmannastöður í útvarpinu. En nú er komið að Framsókn. Samkvæmt vægri útfærslu á helmingaskiptareglunni er nú komið að Framsókn. Hún vill líka eiga yfirmann einhvers staðar ofarlega í kerfinu til að koma sínu að. Það er með öllu ólíðandi að menn skuli hegða sér svona frammi fyrir opnum tjöldum. Þessar aðferðir við hinar pólitísku ráðningar, framkoma ríkisstjórnarinnar í garð stofnana sem hafa leyft sér að standa fyrir einhverri gagnrýni á verk þeirra er náttúrlega eins og við blasir hverjum manni, ýmist eru þær lagðar niður eða eyðilagðar innan frá.