131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[10:52]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2004, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2002/98/EB um setningu gæða- og öryggisstaðla fyrir söfnun, prófun, vinnslu, geymslu og dreifingu blóðs og blóðhluta.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Í tilskipuninni er kveðið á um reglur er varða meðhöndlun á blóði og blóðhlutum á öllum stigum, allt frá blóðgjafa til blóðþega og til notkunar í lyfjum. Markmið tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma við blóðgjöf og byggir hún á sjónarmiðum um almannaheilbrigði.

Í heilbrigðisráðuneytinu er nú unnið að innleiðingu tilskipunarinnar. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.