131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[11:07]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var þörf og ágæt umfjöllun hjá hv. þingmönnum í upphafi þessarar umræðu um þau fimm mál sem hér eru á dagskrá. Ég held að það hafi verið hárrétt að taka einmitt þá umræðu sem snýr að forminu að nokkru leyti strax í upphafi fyrsta málsins. Margt af því sem hv. þingmenn sögðu var auðvitað heilmikið umhugsunarefni og góðar og þarfar ábendingar í hvívetna.

Þegar tilskipanir Evrópusambandsins koma til meðferðar í þingunum, hvaða þingi sem er, er svigrúmið til raunverulegrar umfjöllunar auðvitað takmarkað. Það leiðir af eðli málsins sem er það að menn eru að búa til samræmdar reglur á þessum markaði. Þar með getur ekki eitt einstakt þing af þingunum 25, getum við sagt, á Evrópska efnahagssvæðinu leyft sér þann munað að leggjast yfir mál og haga breytingum eftir eigin smekk og tilfinningu kannski með betri hætti en niðurstaðan varð um í samráðsferlinu hjá Evrópusambandinu. Ekki er því hægt að líta þannig til að menn hafi eitthvert veigamikið svigrúm til að fjalla um málið eins og við erum vön þegar fjallað er um löggjöf hér og svigrúmið er fyrir hendi. Þá erum við eingöngu bundin við íslensku stjórnarskrána og höfum þess vegna mjög fjölbreytt og mikið svigrúm til að ráða löggjöfinni sjálf en þegar reglurnar koma með póstinum frá Brussel, eins og það er stundum orðað og kannski ekki með nógu virðulegum blæ, þá er svigrúmið minna eðli málsins samkvæmt.

Í því sambandi hvort hægt sé að hafa meiri nálægð við þær breytingar sem síðar verða við þá ákvörðun sem til að mynda nú er tekin, um að veita stjórnvöldum heimild til að staðfesta að þjóðarrétti samþykktir á borð við þessar tilskipanir, þá er það auðvitað flókið vegna þess að röðin hlýtur að vera þessi: Fyrst fá menn heimild til að staðfesta tilskipanirnar og síðan er næsti leikur, ef sú heimild fæst og að staðfestingarferlinu loknu, að útfæra þær tillögur annaðhvort með lögum eða reglum eftir því sem efni standa til.

Hitt atriðið sem við gætum eðlilega velt fyrir okkur er hvers vegna menn ganga svo langt að hafa samræmdar reglur um hvaðeina. Það er enginn vafi á því í mínum huga að það sem hér er um að ræða er jákvætt innlegg í að tryggja öryggi í viðkvæmum málaflokki sem fólk verður að geta treyst í viðkomandi löndum, en það er ekki endilega þar með sagt að eina leiðin til þess sé samræmd regla. Ég hygg að betra væri upp á þróun Evrópusambandsins og meira til þess fallið að fólkið felldi sig við starfsemina þar að menn gættu hófs í þeim efnum að setja reglur sem giltu á öllu svæðinu og létu þjóðunum og þingunum eftir rýmra sjálfstæði en nú er gert. Eins og við vitum er svo komið á ýmsum sviðum að t.d. fylkin í Bandaríkjunum hafa nú rýmra sjálfstæði og meira svigrúm en ríkin í Evrópusambandinu. Ég hygg að það hafi aldrei verið meiningin en svona hefur þetta þróast og það er það sem margur hefur að mínu viti réttmætar áhyggjur af.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessar ábendingar sem ég held að hafi komið alveg á réttum stað í þessari umræðu.