131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[11:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi orð hæstv. utanríkisráðherra. Það væri áhugavert að nýr utanríkisráðherra endurskoðaði svolítið vinnubrögðin og væri sá sem tæki það upp hvernig haldið er á málum. Auðvitað er það svo að Alþingi t.d. er þungt í vöfum og þegar kemur að því að endurskoða vinnubrögð þá er mjög mikil tregða. Svo verðum við að horfast í augu við að við verðum líka gjarnan samdauna ákveðnum vinnubrögðum. Það hefur t.d. oft verið rætt hvort sérnefnd eigi að vera um Evrópumálin, hvort rétt sé að farið eða hvort við ættum að vinna öðruvísi en það gerist samt ekkert. Því er athyglisvert að það er varaþingmaður sem hefur þekkingu á þessum málum sem kemur með beina tillögu um breytingu á vinnubrögðum en ekki við sem erum alltaf að vinna í þessum málum í utanríkismálanefnd. Það er hollt að horfa á það.

Ég get ímyndað mér að þannig sé það líka í utanríkisráðuneytinu. Maður byrjar með einhver vinnubrögð sem gætu e.t.v. verið öðruvísi. Síðan kemur nýr utanríkisráðherra með mikla reynslu úr öðru ráðuneyti og örugglega aðra sýn og það væri mjög áhugavert að hann nýtti sér hana til þess að skoða hvernig hægt væri að gera þetta. Auðvitað höfum við nokkurt svigrúm, aðalmálið er að viðhafa fagleg vinnubrögð og tryggja fagleg vinnubrögð. Við höfum nokkurt svigrúm í lagasetningunni en við verðum að tryggja að það sé ekki einhver sjálfkrafa atburðarás sem rennur í gegnum þingið í þessum málum.

Að öðru leyti hyggst ég ekki taka til máls í þeim málum sem eru á dagskrá heldur munum við fara og við förum reyndar afskaplega vel í gegnum slík mál í utanríkismálanefnd og munum gera það líka með þessi mál.