131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á XII. viðauka við EES-samninginn.

605. mál
[11:15]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2004 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Eins og með fyrri ákvörðun er gerð grein fyrir efni hennar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Í tilskipuninni er kveðið á um samræmdar reglur um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir en slíkar ráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu og framsal verðbréfa og reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Tilskipuninni er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir skilvirkri nýtingu fjárhagslegra tryggingarráðstafana á fjármálamörkuðum í Evrópu.

Í dómsmálaráðuneytinu er unnið að gerð lagafrumvarps til innleiðingar tilskipunarinnar og er fyrirhugað að leggja frumvarpið fram á næstu vikum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.