131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn.

606. mál
[11:16]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 179/2004 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð nr. 1592/2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu.

Eins og með fyrri ákvarðanir þá er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri reglugerð sem hér um ræðir.

Í reglugerðinni er kveðið á um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og skilgreind þau verkefni sem stofnuninni eru falin. Stofnuninni er ætlað að vinna að auknu flugöryggi og tryggja samræmdar öryggiskröfur í flugi. Meðal verkefna hennar er að gefa út eða meta gildar tegundarviðurkenningar flugvéla og flugvélahluta. Stofnuninni er að hluta til ætlað að taka við hlutverki Flugöryggissamtaka Evrópu, JAA, sem Ísland er fullur aðili að. Unnið er að innleiðingu reglugerðarinnar í samgönguráðuneytinu.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.