131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:36]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg ljóst að þær ákvarðanir sem hér á að staðfesta eru bæði mikilvægar og stórpólitískar. Það er greinilegt að brugðist hefur verið við í utanríkisráðuneytinu eins og kemur fram í framsögu hæstv. utanríkisráðherra. Ég tek undir að mér finnast það góð vinnubrögð að kalla eftir greinargerðum frá fagfólki eins og hér var gert. Mér finnst líka athyglisvert að hæstv. utanríkisráðherra talar hér um að Alþingi verði að skoða það hvort það áskilji sér ákveðið svigrúm.

Varðandi það sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra um álit fjórmenninganna á sínum tíma, af því að ég var í utanríkismálanefnd á þeim tíma sem var verið að vinna við EES-samninginn og var í þeirri sumarlöngu vinnu sem þá fór fram, er ég þeirrar skoðunar að sá samningur sem er við lýði í dag og hefur orðið til hægt og sígandi á þessum árum sé nokkuð öðruvísi en sá samningur sem við skoðuðum þá. Það breytir því ekki að við verðum að viðhafa mjög fagleg vinnubrögð.

Hér vil ég vekja athygli á því að þegar er búið að mæla fyrir frumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra og ég skil hæstv. utanríkisráðherra þannig að þau efnisatriði sem koma fram hér í þessari tillögu til þingsályktunar, þau sem eiga að fara í lög, sé að finna í því frumvarpi. Ég óska eftir að fá það staðfest af því að ég var ekki á Alþingi við þá umræðu. Ég var við skyldustörf á vegum Alþingis á vettvangi norræns samstarfs. Þarna höfum við a.m.k. möguleika á því að vinna þetta saman og mér finnst spurning hvort efnahags- og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd eigi að eiga sameiginlegan fund með þeim fræðingum sem ástæða er til að ræða við um þessi mál til að tryggja sem besta samfellu í vinnu þingsins.