131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því, það þarf að fara yfir það í utanríkismálanefnd hvernig þau ákvæði sem er að finna hér hafa skilað sér inn í frumvarp viðskiptaráðherra. Ég vil líka nefna það í tilefni af orðum mínum hér við umræðu fyrsta málsins að hér finnst mér spurning hvort bæði þessi mál hefðu átt að vera á dagskrá sama dag, fyrst tillagan sem hæstv. utanríkisráðherra mælir fyrir og síðan frumvarp viðskiptaráðherra. Ég held að það hefðu verið góð vinnubrögð.

Ég endurtek að mér finnst mjög gott að það var kallað eftir að fá álit en mér finnst líka alveg nauðsynlegt að nefndir þingsins kalli til aðra sérfræðinga út af þessu máli. Það er hárrétt að það er ekki hæstv. utanríkisráðherra eða Stjórnarráðsins að hafa skoðun á því hvernig Alþingi vinnur málið. Í þessari umræðu erum við þingmenn e.t.v. líka að koma skilaboðum til formanns utanríkismálanefndar sem situr hér á forsetastóli og fylgist með umræðum.