131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:41]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa farið yfir málið með þeim hætti sem hann gerði, ég held að það hafi verið ákaflega upplýsandi fyrir okkur sem á hlýddum og mikilvægt að fá þá leiðbeiningu. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, þau mál sem hér voru rædd varðandi samkeppnislög og óréttmæta viðskiptahætti tengjast því sem nú er rætt. Þess vegna er spurning mín sú hvort ekki sé eðlilegt í ljósi þess sem hæstv. utanríkisráðherra hefur farið yfir með þeim hætti sem hann gerði og þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í skoðun á þessu máli að þessi mál séu krufin dálítið meira áður en við förum að setja ný samkeppnislög eða nýja lagagerð um þá þætti.

Þar af leiðandi kemst ég kannski frekar að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að flýta sér hægt og klára alla umfjöllun um það sem geta verið vafaatriði eins og hæstv. utanríkisráðherra fór yfir málið. Það ber auðvitað að þakka að sú álitsgerð var unnin sem hann óskaði eftir og verður málunum vafalaust til framdráttar.

Þetta vildi ég sagt hafa í tilefni þessarar umræðu og tel að hér hafi verið vel að málum staðið til upplýsingar fyrir okkur, óbreytta þingmenn.