131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:43]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið opinberlega, ég hef ekki haft tækifæri til þess áður, og óska hv. þingmanni til hamingju með endurkjör sem formaður í flokki hans.

Jafnframt vil ég svara því játandi sem hv. þingmaður nefndi, það er full ástæða til þess við meðferð þessara mála núna í þinginu að þingmenn sökkvi sér niður í þessi stóru prinsippatriði. Þau geta átt við við aðrar aðstæður og þess vegna held ég að það sé hollt og gott að þingmenn ígrundi þessar spurningar mjög rækilega við meðferð málsins. Tilefnið er augljóst og liggur fyrir þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að það er sjálfsagt að gera það. Ég skal ekki segja um hvort það þurfi að leiða til þess að málið fái ekki framgang á þessu þingi, það verður að vera mat þingsins, en við höfum fyrir okkar leyti reynt þó að stuðla að því að flýta þeirri umfjöllun með því að hafa til staðar grundvallarupplýsingar til að auðvelda þingmönnunum verk sitt.