131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:46]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef svo færi að EES-samningnum yrði sagt upp, sem ég mæli nú ekki með, er heldur stoltur af þessu verki margra okkar hér sem komu að málinu, en ef svo færi í framtíðinni að það yrði gert, þá standa þau lög engu að síður sem sett hafa verið á grundvelli samningsins. En þá hefði aftur sú aðstaða skapast að Alþingi gæti án þess að brjóta samninga við erlenda aðila breytt slíkum lögum. En lögin stæðu eftir sem áður og þau mundu ekki falla úr gildi og það er ekki hægt að setja neitt ákvæði að mínu viti í tengslum við lagasetningar sem væru þess eðlis að viðkomandi lög mundu falla úr gildi ef samningnum yrði síðar meir sagt upp. Það yrði þá bara verkefni þess þings sem þá sæti að vega það og meta hvort slík löggjöf ætti að standa eða ekki.