131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:20]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér merkilegt mál sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil taka fram í byrjun að ég er hlynntur þeim en þó þannig að þjóðin sjálf geti sett slíka atkvæðagreiðslu í gang en ekki einn maður, þó að hann sé forseti Íslands.

Það sem ég vildi ræða sérstaklega í frumvarpinu er liður i. (131. gr.), 3. mgr. á síðu 3: „Hafi þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar“ — þ.e. um gildi laga sem Alþingi hefur sett — „og meiri hluti atkvæðisbærra manna synjar lagafrumvarpi gildi fellur lagafrumvarpið úr gildi frá samþykkt þess á þingi og réttaráhrif þess skulu gerð að engu.“

Nú getur maður hugsað sér dæmi um lagasetningu, t.d. lagasetningu um að heimilt sé að rífa Dómkirkjuna til að hún standi ekki í vegi fyrir hraðbraut sem borgarstjórn Reykjavíkur er búin að samþykkja og er komin að dyrum kirkjunnar og mikið liggur við að þær framkvæmdir stöðvist ekki. Maður getur líka hugsað sér dæmi um að samþykkt hafi verið á Alþingi að menn geti gengið yfir á rauðu ljósi í staðinn fyrir grænu og að bannað sé ganga yfir á grænu. Svo taka lögin gildi með fyrirvara um samþykkt þjóðaratkvæðagreiðslunnar og menn neyðast til að fara að lögunum og verða að gera það vegna tímaskorts eða annars. Síðan segir í frumvarpinu að þetta skuli vera ógilt, þ.e. menn eru settir í ómögulega stöðu. Þeir geta ekki farið að lögunum en verða kannski að gera það og síðan þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fellir lögin úr gildi falla þau úr gildi frá upphafi, frá því þau voru sett og þeir verða sekir. Þarna lenda menn í mjög mikilli réttaróvissu. Á að rífa Dómkirkjuna eða á ekki að rífa hana o.s.frv.?