131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:49]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í 21. gr. stjórnarskrárinnar stendur: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Ég man ekki til þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi dregið forseta lýðveldisins til ábyrgðar fyrir innrásina í Írak sem sett var í gang til að setja Saddam Hussein forseta af. Ef ákvæðið er gilt ætti að snúa sér til forseta Íslands með ábyrgðina. En ákvæðið er ekki gilt eins og fjöldamörg önnur ákvæði stjórnarskrárinnar sem varða forsetann. Þau eru öll tekin úr sambandi með því að forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt og margir töldu að 26. gr. væri líka tekin úr sambandi.

Það að menn skuli hafa vísað til þess að Alþingi hafi ekki séð ástæðu til að setja lög af því að 26. gr. væri tóm eins og 21. gr. stjórnarskrárinnar er allt annað en að segja að menn noti það sem rökstuðning að lögin hafi ekki verið sett, þess vegna gildi stjórnarskráin ekki. Það er allt annað. Stjórnarskráin er að sjálfsögðu miklu sterkari en lagasetning frá Alþingi og þó að Alþingi setji ekki lög í samræmi við ákvæði í stjórnarskránni gildir ákvæðið engu að síður. Að stjórnarskránni hafa þingmenn svarið eið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Ef forsetinn vinnur með minni hluta Alþingis og verður pólitískt kjörinn, frá og með atburðum sumarsins, og verður aldrei settur af getur hann hafnað lögum frá Alþingi í gríð og erg, trekk í trekk. Og þegar þjóðin er orðin leið á öllum þjóðaratkvæðagreiðslunum getur þátttakan farið niður í 10% og þá þarf ekki nema 6% þjóðarinnar til að fella lög úr gildi sem meiri hluti Alþingis — sem kosinn er af þjóðinni — hafði samþykkt, samkvæmt frumvarpinu. Þá er spurningin: Er það réttlátt?