131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:53]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðastliðið sumar birtust a.m.k. þrjár mjög merkar lögfræðilegar útskýringar á 26. gr., allar mismunandi. Ég gat fallist á hverja og einustu því þær voru svo sannfærandi, svo rökréttar. Stjórnarskráin er ekki rökrétt, því miður, það er vandamálið.

Menn hættu að ræða gildi 26. gr. vegna þess að allt í einu var búið að taka ákvörðun, forseti Íslands tók ákvörðun um að ákvæðið væri gilt. Þangað til höfðu merkir lagaprófessorar og lögspekingar talið að það væri ekki gilt og væntanlega líka allir fyrrverandi forsetar því enginn þeirra beitti ákvæðinu. Ég man eftir mjög erfiðri stöðu þegar verið var að setja lög á verkfall flugfreyja á kvennafrídeginum, sem forseti Íslands varð að skrifa undir. Þá hefur hún örugglega hugleitt hvort hún gæti beitt ákvæðinu.

Það að menn geri sér að leik, nei, ég á ekki við það. Ég á við að menn noti þetta í pólitískum tilgangi, forseti Íslands verði héðan í frá kosinn pólitískt af því að hann hefur áhrif á lagasetningu. Ég fullyrði það. Segjum að hann nái fram kjöri í krafti þeirra flokka sem seinna verða stjórnarandstæðingar á þingi. Þá vinnur hann með þeim gegn stjórninni. Ég óttast að það verði niðurstaðan.

Menn tala um að þjóðin gæti öll mætt á kjörstað. Þetta getur verið málefni sem hún hefur engan áhuga á, t.d. varðandi tannsmíði. Hver hefur áhuga á því nema tannsmiðir og tannlæknar? Málin geta því verið þess eðlis að þau risti ekki það djúpt í hugum þjóðarinnar að hún nenni að ómaka sig á kjörstað og hætta við að fara upp í sumarbústað.