131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:55]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í 2. gr. finnsku stjórnarskrárinnar stendur í lauslegri þýðingu minni að fullveldið sé hjá þjóðinni. Það er ákvæði sem við þurfum að taka upp í stjórnarskrá okkar til að taka af allan vafa um hvaðan valdið kemur í samfélaginu. Það kemur frá þjóðinni.

Þar með eiga menn að venja sig á að ræða aldrei um það sem vandamál að þjóðin ákveði hlutina með lýðræðislegum hætti. Stjórnvöld sem hafa lent í því að taka ákvarðanir sem þjóðin síðan hafnar eiga ekki að skammast út í þjóðina, þau eiga að líta í eigin barm. Ákvæðið felur ekkert annað í sér en málskotsrétt forsetans og því var aldrei hugsað að vera neitt annað en að gera honum kleift, hinum þjóðkjörna forseta, að vísa málum í dóm þjóðarinnar.

Fyrir mér hefur það aldrei verið neitt vafamál að ákvæðið væri virkt. Ég bendi á að bæði núverandi og fyrrverandi forsetar hafa litið svo á og boðið sig fram undir þeim formerkjum að þeir teldu málskotsréttarákvæðin samkvæmt 26. gr. virk. Það gerði frú Vigdís Finnbogadóttir, svo mikið man ég. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, hefði ekki tekið sér umhugsunarfrest varðandi EES-samninginn ef hún hefði talið að hún hefði alls ekki það vald að vísa honum til þjóðarinnar. Það er sönnun þess að hún leit svo á að það kæmi til greina, enda man ég vel að það var skoðun hennar og hún rökstuddi það, ef ég man rétt, strax þegar hún var í fyrsta skipti í framboði og síðar.

Sama gildir um núverandi forseta. Þegar hann var fyrst kjörinn held ég að allir fjórir forsetaframbjóðendurnir í kosningunum hafi einmitt lýst því yfir (Forseti hringir.) að þeir væru sammála um að 26. gr. væri virk.