131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness.

504. mál
[13:39]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Örstutt. Ég ætla ekki að tefja 3. umr. en í nefndaráliti frá hv. félagsmálanefnd segir svo, með leyfi forseta:

„Jörðin Utanverðunes var gefin Rípurhreppi árið 1838 og skyldi gjöfinni varið til framfærslu munaðarlausra barna í hreppnum.“

Þetta er ekki rétt að mínu mati því að í Íslandssögu Einars Laxness segir svo, með leyfi forseta:

„Kristfé: Fé, gefið Kristi til framfærslu „guðs fátækra“ eða þeim til styrktar með öðrum hætti, sem kirkjuvaldið hvatti menn til þegar um miðja þjóðveldisöld til að gefa sér til sáluhjálpar og guðsþakka, enda þurfti ekki að greiða tíund af slíkum gjöfum.“

Við erum sem sagt að ræða um gjöf sem gefin var Kristi en ekki hreppnum. Ég vildi hafa þetta á hreinu, vegna þess að ég hef dálítinn áhuga á eignarrétti, þannig að menn viti að við erum hér í umboði Krists að selja þessa jörð.