131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness.

504. mál
[13:44]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst umræðan snúast nokkuð um að þetta hafi verið einstakur atburður að jörð hafi verið gefin í tilteknu tilfelli og með tilætluðum ástæðum. En ég hlýt að geta þess að kristfjárjarðir finnast víða um land. Þannig vill til að fjölskylda mín, afkomendur afa míns og ömmu eiga jörð sem á sínum tíma var kristfjárjörð og meðan þau leigðu þá jörð áður en þau keyptu hana fylgdu jörðinni kvaðir. Kvaðir kristfjárjarðar voru að sjá um þann aumasta og minnsta sem á þyrfti að halda. Þeir sem bjuggu slíka jörð urðu alltaf að vera tilbúnir að taka að sér þann sem á þurfti að halda í hreppnum, veita barni eða öðrum nauðþurftabúsetu og umönnun. Það voru skilyrði kristfjárjarðarinnar.

Ég er alveg sannfærð um að það var allt löglegt þegar afi minn og amma keyptu síðan þessa jörð. En þetta er ekki eitthvað sem gerist einu sinni að jörð er gefin með góðu hugarfari og heitir þá kristfjárjörð. Þetta er algengt og þær hafa verið til fleiri í landinu.