131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:06]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þetta ákvæði sé rökleysa og þurfi að breyta þannig að þau lög sem forseti hefur synjað undirskriftar haldi gildi sínu þangað til þjóðin hefur fellt þau úr gildi. Annað er ekki hægt og menn verða bara að taka afleiðingunum af því. En það er þá a.m.k. þannig að menn eru ekki gerðir refsiverðir fyrir eitthvað sem var leyft áður eða öfugt.

Hv. þingmaður talaði um þjóðaratkvæðagreiðslu en hann er ekki alveg sáttur við að einn maður geti ákveðið það og enginn annar, þ.e. forseti Íslands. Hann leggur til að þjóðin sjálf geti beðið um hana. Það er í samræmi við frumvarp sem ég hef flutt á Alþingi, um afnám forsetaembættisins, þar sem ég lagði reyndar til að 25% atkvæðisbærra manna gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og þannig væri þetta vald flutt til þjóðarinnar, enda sitja bæði forsetinn og Alþingi í umboði þjóðarinnar til fjögurra ára og getur hvor um sig brugðist trausti þjóðarinnar á þeim tíma og þjóðin á þá ekki kost á að gera neitt í málinu. Hins vegar getur forsetinn synjað lagafrumvarpi frá Alþingi undirskriftar trekk í trekk.