131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:07]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þegar við ræddum fjölmiðlafrumvarpið fyrir ári síðan og fram á sumar kvörtuðu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um að þeir hefðu ekki nægan tíma til að ræða málið. Það var mikið kvartað undan því og samt liðu þrír mánuðir frá því að frumvarpið var lagt fram og þangað til það átti að afgreiðast. Mönnum þóttu þrír mánuðir ekki nægur tími fyrir stjórnarandstöðuna sem hefur atvinnu af því að taka afstöðu til mála. Það dugði ekki til að mynda sér skoðun á málinu og hlusta á alla sérfræðinga og annað slíkt.

Ég er að velta því fyrir mér hvernig við getum vænst þess að hinn einstaki kjósandi taki afstöðu í flóknum málum hafandi ekki aðstöðu til að hlusta og fá til sín sérfræðinga og spyrja þá í þaula. Hvernig getur hann tekið afstöðu í svona flóknum málum á eins stuttum tíma og þjóðaratkvæðagreiðslan gerir kannski ráð fyrir. Ég held nefnilega að þjóðin framselji fullveldið, sem ég er sammála hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni um að liggur hjá þjóðinni, til Alþingis til þess að Alþingi geti sökkt sér ofan í mál og tekið afstöðu til þeirra á vitrænan hátt og svo svarar Alþingi fyrir þjóðina á fjögurra ára fresti a.m.k. Fullveldið er þannig uppbyggt að þjóðin hefur það og hún veitir Alþingi það og sem fulltrúi þjóðarinnar samþykkir Alþingi lög og reglur sem þjóðin fer svo eftir.

Alþingi er kosið til fjögurra ára og forseti Íslands er líka kosinn til fjögurra ára. Forsetinn getur rofið Alþingi skv. 24. gr. Reyndar er aftur spurning um hvort það ákvæði sé ekki tómt eins og 21. gr. Flest ákvæðin í stjórnarskránni sem gilda um forsetann eru nefnilega tóm, þau hafa ekkert gildi. Ég nefni sérstaklega, og nefndi í umræðunni í morgun, 21. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Ég man ekki til þess að þeir sem gagnrýndu herförina í Írak til að setja Saddam Hussein af hafi gert forseta Íslands ábyrgan fyrir því. Mig minnir að menn hafi gert utanríkisráðherra ábyrgan fyrir því. Samt stendur í stjórnarskránni að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Þetta er sem sagt tómt ákvæði, gersamlega tómt, hefur ekkert að segja. Það er þannig með mörg ákvæði stjórnarskrárinnar varðandi forsetann að þau hafa ekkert að segja og lengi vel töldu menn að 26. gr. væri eins uppbyggð þar til núverandi forseti lýðveldisins tók af skarið og tók sér þetta vald gegn Alþingi, þ.e. einn aðili sem þjóðin hafði kosið til fjögurra ára tók sér vald gegn öðrum aðila sem þjóðin hafði líka framselt fullveldisvald sitt til fjögurra ára. Það er spurning hvort er betra að einn aðili geti synjað lögum staðfestingar eða að það þurfi a.m.k. 32 til að setja lög. Ég hallast að því að betra sé að minnst 32 setji lög í landinu en einn.

Frú forseti. Í mínum huga er nokkuð ljóst að forsetakosningar framtíðarinnar munu snúast um pólitík af því að núna er orðið ljóst sem ekki var áður í hugum flestra að forsetinn er virkur þátttakandi í lagasetningu. Hann getur ráðið úrslitum um hvort mikilvæg frumvörp taki gildi eða ekki og hann getur vísað því til þjóðarinnar eftir því sem honum sýnist. Þess vegna mun hann héðan í frá verða kosinn pólitískt — hann hefur ekki verið það hingað til — og ef við setjum upp þá stöðu að hann vinni með minni hlutanum, að það gerist eftir kosningar sem ekki eru á sama tíma að forseti lýðveldisins í framtíðinni vinni með minni hlutanum á Alþingi, sé teflt fram af þeim í forsetakosningum, þá getur hann í rauninni stöðvað alla lagasetningu frá Alþingi með því að vísa henni í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem þjóðin samþykkir það svo á eftir. Þetta tefði alla lagasetningu. Þegar mikið verður um slíkar kosningar minnkar áhugi þjóðarinnar og þá fara litlir hagsmunahópar að geta haft áhrif á þær, segjum að þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu fari niður í 10% vegna þess að búið er að kjósa aftur og aftur, þá dygðu 6% þjóðarinnar til að fella lög frá Alþingi sem samt er kjörið af meiri hluta þjóðarinnar. Þetta sé ég sem stóran vankant á þetta frumvarp.

Svo er náttúrlega mikill ókostur við frumvarpið að ekki er gert ráð fyrir því að breiður meiri hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur bara einn maður gert sem kosinn var af þjóðinni til fjögurra ára og situr í fjögur ár. Svo merkilegt sem það er geta einungis 75% þingmanna sett forsetann af og það næst ekki fram, ef hann er kjörinn pólitískt og vinnur með minni hlutanum, ef minni hlutinn hefur meira en 25%. Hins vegar getur forsetinn, skv. 24. gr. lýðveldisins, rofið Alþingi. Nú vita menn ekki hvort það ákvæði er líka tómt, menn vita ekki hvort atbeina ráðherra þurfi til að rjúfa Alþingi. Það yrði væntanlega látið á það reyna hvort hann hafi það vald að rjúfa Alþingi. Hann gæti sem sagt rofið Alþingi aftur og aftur á þeim fjórum árum sem hann situr í valdastóli þannig að ef hugsað er dálítið lengra fram í tímann með forseta sem hafa miklar stjórnmálalegar skoðanir þá held ég að þetta frumvarp sé nokkuð hættulegt.

Nú er að störfum nefnd, frú forseti, sem fjallar um stjórnarskrána og ég ætla að vona að hún taki á þeim rökleysum sem eru í stjórnarskránni þar sem stendur eitt en gildir annað, eins og t.d. með samninga við erlend ríki, og hún taki líka á því þar sem stendur að forsetinn geti rofið þing og geri það ákvæði annaðhvort fullvirkt þannig að það sé vilji manna, sem ég er mjög andsnúinn, eða taki það út. Það er óþolandi að stjórnarskráin sé þannig uppbyggð, eins og t.d. með 26. gr., að það skuli koma fram þrjú mjög flókin lögfræðiálit, frú forseti. Ég las þau öll og ég gat fallist á þau öll. Ég gat fallist á rökstuðninginn í þeim öllum. Samt voru þau þvert á hvert annað, niðurstaðan varð þvert á hvert annað. Ég legg áherslu á að sú nefnd sem um þetta fjallar reyni að gera stjórnarskrána rökréttari, skýrari og einfaldari og þannig að venjulegt fólk geti lesið hana.