131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður endurtók að hluta til gagnrýni sem hann hefur haft uppi fyrr í umræðunni í andsvörum, þar á meðal hvað forsetinn hafi með höndum og geri og hvað hann láti ráðherra framkvæma í sínu umboði. Um slíka hluti snýst þetta frumvarp alls ekki. Frumvarpið snýst einfaldlega um að setja inn í kosningalög útfærslu á reglum um hvernig kosning fari fram samkvæmt gildandi ákvæðum stjórnarskrárinnar ef á það reynir í einhverju af þeim þremur tilvikum sem stjórnarskráin kveður á um að slíkar kosningar þurfi að fara fram. Ef Alþingi ákveður að víkja forseta úr embætti, ef forseti beitir synjunarvaldi eða málskotsrétti samkvæmt 26. gr. og ef Alþingi ákveður að gera breytingar á kirkjuskipaninni. Annað er ekki í frumvarpinu. Mér finnst það ekki vera réttmætt að gagnrýna frumvarpið fyrir hluti sem alls ekki eru í því og aldrei stóð til að yrðu í því, eins og einhver almenn þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði sem væntanlega kæmu fyrst inn í stjórnarskrá og yrðu þá síðar útfærð í kosningalögum.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi, þó að það sé sömuleiðis í rauninni utan við efni frumvarpsins, þ.e. þau ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um þingrofsvaldið, forseti setji Alþingi og rjúfi Alþingi, þá hélt ég að hv. þingmaður vissi hver hefðin og reglan eru í þeim efnum, að það er forsætisráðherra sem í reynd fer með hið svokallaða þingrofsvald. Forsætisráðherra leggur til við forsetann að þing sé rofið og kemur með bréf frá honum um samþykki hans við því og gengur svo í ræðustólinn og slítur Alþingi, stundum fyrirvaralaust eins og sagan geymir. Það þarf því ekki að vera að reyna að búa til meiri óvissu um túlkun á ákvæðum stjórnarskrárinnar en efni standa til því að í þessu efni liggur fyrir þó nokkur saga, enda þingrof allmörg frá því að Alþingi var endurreist.