131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:20]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig rétt að þetta frumvarp gengur út frá gildandi stjórnarskrá og skýrum ákvæðum hennar. Út frá hverju öðru ætti það að ganga? Það er skoðun okkar flutningsmanna og ég held vonandi sem flestra að þessi þrjú ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjalla um sérstök tilvik þegar bera skal hluti undir þjóðaratkvæði séu öllsömul skýr og þau séu að sjálfsögðu öll virk. Það er alveg ljóst að Alþingi getur gripið til þess ráðs að víkja forseta úr embætti. Það hefur sem betur fer aldrei á það reynt, aldrei verið nokkur ástæða til þess. Það er ekki þar með sagt að þó að ákvæðið hafi staðið ónotað í 60 ár sé það ekki í gildi. Jú, auðvitað. Þannig er það með fjölmörg ákvæði bæði í stjórnarskrá og lögum að á mörg þeirra reynir ýmist sjaldan eða jafnvel aldrei en þau eru áfram í gildi. Það er ekki það sama og að gömul lagaákvæði verði dauður bókstafur vegna þess að réttarþróunin og önnur lagaákvæði og framkvæmd hefur fært þau til hliðar, ekki þegar um skýr grundvallarákvæði af þessu tagi er að ræða. Og þetta jarm um að 26. gr., málskotsréttur forsetans sé ekki gildur og virkur samkvæmt þeirri grein, ég hélt að það hefði dáið endanlega í sumar því það sjónarmið einfaldlega hljóðnaði og hvarf út úr umræðunni á nokkrum sólarhringum.

Það er að vísu alveg rétt að þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, og hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, reyndu þetta aðeins í einhverja sólarhringa, að tala eins og það væri jafnvel álitamál hvort þyrfti nokkuð að taka mark á synjun forsetans en svo hættu menn því og fóru að ræða um hvernig ætti að bregðast við að synjun forsetans væri staðreynd, að forsetinn hefði þetta vald og ég held ljóst sé að það er ríkjandi sjónarmið sem verður tæplega vefengt með neinum rökum og sama gildir um hin tvö ákvæðin. Þetta frumvarp er því í fullkomnu samræmi við gildandi stjórnarskrá og skýr ákvæði hennar sem eru lifandi og virk.