131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:37]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom að í fyrra andsvari mínu þá er ég frekar talsmaður tilslakana á þessu sviði. Ég vil heimila frekari auglýsingar en núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Ég tel að það væri eðlileg regla í íslenskri löggjöf að mönnum ætti að vera heimilt að auglýsa þær vörur sem löglegar eru, allar löglegar neysluvörur. Ég tala ekki um vörur sem ríkið hefur einkasölurétt á, í stað þess að búa til flóknar reglur sem ekki er hægt að framfylgja.

Ég heyri að hv. þingmaður viðurkennir þetta vandamál sem ég benti á, þ.e. að þrátt fyrir að þetta frumvarp verði að lögum þá verður það eftir sem áður þannig að á Íslandi verða heimilaðar áfengisauglýsingar en einungis í fjölmiðlum sem koma frá útlöndum. Þá vaknar spurningin: Með því að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti, er þá ekki verið að mismuna þeim aðilum sem reka og starfrækja fjölmiðla á Íslandi og eru náttúrlega háðir auglýsingum og auglýsingatekjum í rekstri sínum? Felur þetta frumvarp og núverandi stefna, að banna íslenskum fjölmiðlum að selja auglýsingar af þessu tagi, ekki í sér mismunun gagnvart þeim? Ég get ekki betur séð en að svo sé. Af þeim ástæðum, prinsippástæðum sem ég hef rakið, tel ég að við eigum að fara aðra leið en hv. þingmenn vilja fara og heimila meira frelsi á sviði auglýsinga, þótt ég virði það sjónarmið sem fram kemur hjá flutningsmönnum frumvarpsins. Ég er bara ósammála þeim.